Gildin sem áttaviti

Gildin sem áttaviti

Flutt á hausþingi Framtíðarlandsins 29. október 2006
Gunnar Hersveinn

Gildi er siðferðilegt hugtak um verðmæti sem rúma tilfinningar, dyggðir og afstöðu. Gildi eru oft sett í öndvegi tímabundið eftir að menn hafa uppgötvað ákveðna galla hjá sjálfum sér eða í samfélaginu, galla sem þeir vilja losna við. Þau eru sett til að verða betri manneskja eða til að bæta samfélagið. Undanfarin ár hafa hópar, fyrirtæki, félög og stofnanir í auknum mæli valið sér gildi sem leiðarljós í starfi sínu.

Aðferðir hafa verið þróaðar til að innleiða gildi í stofnanir og fyrirtæki, til að mynda með umræðufundum og fræðslu. Gildi eru sett eftir umræður og stjórnendur gæta þess að taka engar þýðingarmiklar ákvarðanir nema þær séu í samræmi og samhljómi við leiðarljósið sem sett hefur verið. Gildin mega aldrei vera bara innrömmuð orð uppi á vegg. Þau eiga að vera lifandi áttaviti gagnvart einstaklingum, starfsmönnum, viðskiptavinum og þjóðinni allri.
Megingildi Framtíðarlandsins fyrst um sinn eru ábyrgð, náttúruvernd, virðing, fjölbreytni, sjálfstæði, sköpunargleði, kjarkur og frumkvæði. Þessi gildi vísa í gæði en ekki magn: lífsgæði. Heppilegt er að fjalla um gildin í fjórum tvenndum.

Kjarkur <-> Frumkvæði

Kjarkur er nauðsynlegur öllum einstaklingum og samfélögum sem vilja ákveða sjálf hvert skal stefna ? og því þarf að efla þessa dyggð með ungu fólki. Samfélag sem skortir frumkvæði lætur aðra segja sér fyrir verkum og verður háð vilja annarra. Hugrökk þjóð stígur hinsvegar skref gegn tíðarandanum og verndar gullin sín. Að mala gull felst ekki aðeins í sölu á framleiðslu heldur blasa gæðin við t.a.m. í ósnertu víðerni á grösugu hálendi. Kjarkur er að finna til kvíða en þora samt að stíga skrefið, þora að fara aðra leið en áður hefur verið farin. Hægt er að draga sig í hlé og láta aðra leiða sig þangað sem maður vill ekki fara, en það er dapurlegt hlutskipti. Það þarf kjark til að segja skoðun sína, kjark til að efast um það sem flestir telja. Nútímafólki ber skylda til að sýna frumkvæði í þróun atvinnuvega sem menga ekki andrúmsloftið og auka ekki gróðurhúsaáhrifin eða eyðileggja víðernin. Frumkvæði getur orðið öðrum þjóðum til eftirbreytni í þessum efnum. Það þarf bæði kjark og frumkvæði til að tefla fram öðrum möguleikum en ríkjandi hugmyndafræði og valdastéttin styður. Að styðja möguleika sem liggja út í jaðrinum og of fáir sinna af heilum hug, möguleika sem líta fremur til hagsmuna næstu kynslóðar en sinnar eigin. Það er ekkert merkilegt við það að sinna einungis eigin hagsmunum, en það er lofsvert að leggja öðrum og komandi kynslóðum lið sitt. Snúast þarf því á sveif með hugarfari og vinnubrögðum sem vinna með sjálfbærri þróun og vistvænu atferli. Hugarfari sem er einnig líklegt til að gera gott fólk úr börnum. En börn eru veikur hagshópur og einmitt af þeim sökum þarf að handstýra uppeldinu og vernda bernskuna og náttúruna fyrir óæskilegum áhrifum stundarhagsmuna.

Sjálfstæði <-> Sköpunargleði

Menning á hverjum stað er byggð á sögu, landslagi og á hugmyndaflugi og vilja til nýrra framkvæmda. Frumkvöðlar eru iðulega á undan sínum tíma og því er nauðsynlegt að skapa þeim umhverfi til að verk þeirra geti dafnað og þróast. Sterk sjálfsmynd þjóðarinnar á að byggjast á nútímalegri náttúrusýn, þekkingu á eigin menningu og sérkennum og samræðu við alþjóðlega menningarstrauma. Sjálfstæð, gagnrýnin og skapandi hugsun er forsenda fyrir samfélagi sem getur staðist utanaðkomandi þrýsting. Þekking er farsæl mannvirkjun í nútímasamfélagi. Íbúar í samfélagi sem þeir vilja efla verða að rækta sköpunargleðina og styðja hana þegar hún brýst fram. Sköpunargleðin felst í því að skapa samfélag þar sem úrelt viðmið víkja og jafnræði er með kynjunum gagnvart völdum og tækifærum. Lýðræðið felst í því að veita mörgum hugmyndum brautargengi, styðja og efla jafnt stórverkefni sem smá. Sjálfstæði þrífst ekki þar sem ein hugmynd yfirtekur öll önnur tækifærin og engin önnur hugmynd fær rannsóknarstyrk eða fylgi. Samfélag menntunar sem jafnframt býr yfir fjölbreyttum tækifærum og stuðningi til að nýta hana er gott samfélag. Menning sem jafnframt veitir aðhald og ábendingar felur í sér ósegjanleg verðmæti. Ungt fólk og ungar fjölskyldur þurfa efnivið til að geta staðist ásókn áreita í neyslusamfélaginu. Besta vörnin er innri vörn gagnrýnnar og skapandi hugsunar. Eða hvað er velferð án fegurðar, velmegun án gleði, hagvöxtur án sköpunar? Foreldrar eiga að æfa börnin í að draga vænlegar ályktanir ? en til að geta tekið heillavænlega ákvörðun þarf þekkingu á þrennu: sjálfum sér, öðrum og aðstæðum. Niðurstaðan er ekki boð og bönn heldur gagnrýnin skynsemi sem er skapandi og virk. Markmiðið er að barnið öðlist styrk til að ráða yfir skapi sínu og tilfinningum. Hafi vit og þor til að gera greinarmun og taka heillavænlegar ákvarðanir á eigin forsendum.

Virðing <-> Fjölbreytni

Virðing er höfuðdyggð í lýðræðissamfélagi, virðingin fyrir öðrum, virðingin fyrir öldruðum og börnum, virðingin fyrir náttúrunni og fyrir fjölbreytninni sem iðar á jörðinni. Skeytingarleysið er lösturinn gagnvart þeim sem ekki geta borið hönd yfir höfuð sér. Andstæða virðingarinnar er að vera sama, að vera einn, að búast við þjónustu en vilja ekki leggja neitt fram sjálfur ? þar er hættan. Helstu gildi lýðræðislegs samstarfs eru: jafngildi allra manna, virðing fyrir einstaklingum og samábyrgð. Þannig myndast gagnkvæm virðing í samskiptum. Virðing fyrir sjálfum sér er byrjunin, virðing fyrir öðrum mönnum er næsta stig og virðing fyrir öðru lífi, annarri menningu og kröftum náttúrunnar er þriðja stig fullþroska fólks: að geta metið fleiri hagsmuni en sína eigin og að kunna að nema staðar áður en græðgin tekur völdin. Efla þarf víðsýni og meta frumkvæði og framlag einstaklinga óháð uppruna, kyns, aldurs, kynhneigðar og fötlunar. Virðing felst í því að umgangast aðra með tillitssemi. Hún snýst um að þekkja rétt annarra og að kunna að meta hann. Virðingin er háð væntumþykju gagnvart lífinu í heild, hún er ekki aðeins milli manna, heldur einnig gagnvart dýrum og náttúru. Meginverkefnið er að vinna gegn dofanum gagnvart framtíðinni, að læra að hugsa í öldum í stað ára. Lýðræði felst ekki í meiri þjónustu heldur í virkri þátttöku borgarana. Fólk er of góðu vant í þjónustusamfélaginu ? það sem þarf að taka við er samfélag sem ævinlega virkir borgarana. Fjölbreytt samfélag snýst um að byggja upp marga máttárstólpa sem reistir eru af hugsjón um fjölmenningu. Reynslan sýnir að þar sem ólík menning blandast í góðum vilja, þar gerist eitthvað nýtt og óvænt. Fjölþætt menntun er lykillinn að því að virkja þann sköpunar- og lífskraft sem býr í menningu íbúanna og landinu. Hún felst meðal annars í því að hlúa að fortíðinni og því sem íbúar hvers staðar vilja síst glata og horfa til framtíðar: Íbúar sem vilja efla félagsauðinn í samfélaginu og skapa fjölmenningarlegt samfélag möguleikanna.

Ábyrgð <-> Náttúruvernd

Ábyrgðarkenndin er hornsteinn mannlegs siðferðis. Skorti hana slitnar sambandið við aðra og umheiminn. Sá sem finnur ekki til ábyrgðar getur ekki byggt upp raunverulegt samband við aðra og honum er ekki hægt að treysta. Ekki er hægt að fela honum mikilvæg verkefni eins og að gæta barna eða vernda dýrmætt land. Gildi náttúrunnar einskorðast ekki við manninn, því maðurinn er aðeins vera í náttúrunni á tilteknu skeiði, lífvera sem kemur og fer. Höfuðatriði er því að rækta ábyrgðina gagnvart náttúrunni og lífinu á jörðinni í heild. Fullþroskuð siðgæðisvera er ekki einungis umhugað um eigin tegund og afkvæmi á meðan hún lifir, heldur hefur hún ennfremur vilja til að aðrar lífverur geti búið áfram í náttúrulegum heimkynnum sínum. Efla þarf ábyrgð á öllum stigum, rækta hana með einstaklingum og kenna í skólum, meðal annars vegna þess að ábyrgðarleysi bitnar á öllum. Meginverkefnið núna er að efla sambandið milli ábyrgðarkenndar og náttúruverndar ? og á milli ábyrgðarkenndar og barna. Það er verðugt hlutverk Íslendinga að taka að sér að vera málsvarar náttúrunnar, ekki aðeins í orði heldur á borði. Standa vörð um náttúru landsins, uppfræða almenning um gildi óspilltrar náttúru og efla vistvæna lífshætti í stóru sem smáu. Slík þjóð getur verið til fyrirmyndar og verið stolt. Þjóð sem á hinn bóginn gengur á höfuðstól sinn er dofin þjóð sem skilur ekki verðmæti fegurðarinnar og skeytir ekki um heimkynni og kjör annarra lífvera. Henni hefur verið talin trú um að allt sé leyfilegt í nafni mannsins, í nafni peninganna. Langtímaverkefnið er að efla hæfileika barna til að tjá hugsanir sínar og skoðanir og að vera við stjórnvölinn í eigin lífi. Efla hæfileikann til að taka ábyrgð á gerðum sínum, umhverfi og náttúru. Bernskan þarfnast föruneytis, hún þarf ráð og leiðbeiningar til að geta tekið gifturíkar ákvarðanir. Voðinn er vís ef fylgdin sofnar á verðinum og eyðir framtíðarlandinu.

Sjá fleirri greinar

Gunnar Hersveinn, Lífsgildin.is


Svæði

  • Facebook
  • Vimeo
  • Soundcloud
  • RSS
moya