Skiptar skoðanir hafa verið um kosti þess og galla að virkja í Eldvörpum.
Helstu kostir þess að virkja í Eldvörpum byggjast á því að það sé tiltölulega ódýrt vegna nálægðar við þau virkjanamannvirki sem komin eru við Svartsengi og Eldvarpavirkjun og því eðlilegt framhald af þeim mannvirkjum.
Einnig að stutt sé til helsta orkumarkaðarins. Þegar hefur verið lagður vegur inn að miðju gígaraðarinnar og gert þar borplan og er því hvort eð er komin nokkur röskun. Ekki stendur til að raska gígunum sjálfum með virkjuninni og vegir sem gerðir verði um svæðið muni skapa bætt aðgengi að þessari náttúruperlu þar sem virkjun og náttúra muni fara vel saman.
Á móti ofangreindu hefur einkum verið teflt tvenns konar rökum:
Allt frá því að Guðmundur Pálmason jarðfræðingur áætlaði að sameiginlegur jarðhitageymir væri undir Svartsengi og Eldvörpum, er sýnt að með dælingu upp úr þessu hólfi væri aðeins verið að stytta endingartíma virkjunarinnar og virkjunin því ekki aðeins óþörf heldur beinlínis skaðleg með tilliti til hagsmuna komandi kynslóða. Virkjun í Svartsengi og Eldvörpum yrði enn fjær því að skapa endurnýjanlega orku eða standast skilyrði um sjálfbæra þróun en ella.
Gígaraðir eru eitt verðmætasta og sérstæðasta sérkenni íslensks landslags. Flestar hafa myndast undir jökli en mun færri eftir síðustu ísöld. Eldvörp eiga enga hliðstæðu fyrr en komið er austur að Lakagígum og eru eins konar smækkuð útgáfa af þessari frægustu gígaröð landsins.
Eldvörp eru þar að auki skammt frá helsta alþjóðaflugvelli og þéttbýli landsins og fela því ósnortin í sér mikil verðmæti. Núverandi vegur og borplan fela að vísu í sér röskun, en margfalt minni röskun en ef gerð eru þar borplön með borholum og gufuleiðslum, hvað þá ef þar yrði reist stöðvarhús og skiljuhús með tilheyrandi háspennulínum.
Skammt frá Eldvörpum er Sundvörðuhraun með merkum minjum um felustað Grindvíkinga vegna Tyrkjaránsins og hin merka og forna gönguleið Árnastígur.
Mynd © Ellert Grétarsson