Krýsuvíkursvæðið nær yfir nokkur minni jarðhitasvæði sem tengjast eldstöðvakerfi sem venjulega er kennt við Krýsuvík. Meginsvæðin eru Sveifluháls, Austurengjar, Trölladyngja og Sandfell. Jarðhita er jafnframt að finna við Syðri Stapa í Kleifarvatni, við Köldunámur og við Hverinn eina.
Jarðhitinn er við jaðra gos- og sprungureinar eldstöðvakerfisins. Nærri miðju þess liggur móbergshryggurinn Núpshlíðarháls en beggja vegna hans eru hraunflákar og gossprungur frá síðustu árþúsundum. Þar sem móbergið hefur þést af jarðhitaummyndun renna lækir út á hraunin og hafa myndað þar gróðurlendi, t.d. Höskuldarvelli, Selsvelli, Vigdísarvelli og Tjarnarvelli. Utan jarðhitasvæðanna er rennandi vatn á yfirborði nánast óþekkt í Reykjanesfjallgarði vestan Hellisheiðar.
Nú eru uppi áform um að virkja á þessum jarðhitasvæðum og stefna þannig vatni og lífríki í hættu. Fjórar virkjunarhugmyndir í rammaáætlun eru á Krýsuvíkursvæðinu og falla þær í nýtingar- eða biðflokk. Sandfell og Sveifluháls falla í nýtingarflokk og Trölladyngja og Austurengjar í biðflokk.
Hugmyndir um virkjun þessara svæða tengjast aðallega fyrirhugaðri álbræðslu í Helguvík. Krýsuvíkursvæðið er metið sem ein heild í mati Orkustofnunar og er talið 89 km2 að stærð með vinnslugetu sem nemur 445 MW til 50 ára. Þar með verður það þriðja aflmesta jarðhitasvæði landsins á eftir Hengilssvæði og Torfajökulssvæði. Þessi túlkun á stærð svæðisins hefur verið dregin í efa enda ekki í samræmi við niðurstöður borana frá því um 1970. Óháðar athuganir benda til að samanlögð vinnslugeta svæðanna sé um 120 MW til 50 ára en álbræðsla í Helguvík þarf 650 MW.
Ennfremur eru virkjunarhugmyndirnar ekki taldar sjálfbærar og útlit fyrir að orkan úr svæðunum klárist á fáeinum áratugum, en til að virkjun geti talist sjálfbær þarf svæðið að nýtast í að minnsta kosti 200-300 ár.
Rúmlega 60% landsmanna búa í nánd við óspillta náttúru Krýsuvíkursvæðisins og Reykjanesskagans. Svæðið er því kjörið til útivistar, auk þess sem náttúra skagans minnir um margt á óspillt víðerni hálendisins. Hugmyndir hafa lengi verið uppi um eldfjallaþjóðgarð á Reykjanesskaganum en þar gengur úthafshryggur á land á mótum tveggja jarðskorpufleka með sýnilegum ummerkjum eldsumbrota liðinna árþúsunda.
Mynd © Ellert Grétarsson