KOMDU ÞÉR Á NÁTTÚRUKORTIÐ OG KYNNTU ÞÉR STÖÐU MÁLA!
Náttúrukortið veitir yfirsýn yfir þau svæði á Íslandi sem fyrirhugað er að nýta til orkuframleiðslu eða raska á annan hátt. Tekið er mið af niðurstöðum 2. áfanga rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði en það eru iðnaðarráðuneytið og umhverfisráðuneytið sem hafa unnið að þessari útlistun nýtanlegra auðlinda.
Í rammaáætlun eru til umfjöllunar 80 virkjunarhugmyndir sem raðast í þrjá flokka, þ.e. verndarflokk, sem hefur að geyma þau svæði sem ber að vernda; nýtingarflokk, þar sem þau svæði sem má virkja falla; eða í biðflokk, en í hann falla svæði sem skoða þarf betur áður en ákvörðun um vernd eða nýtingu er tekin.
Til að skapa heildarsamhengi bætir Framtíðarlandið svo við flokknum virkjað sem felur í sér svæði sem þegar hafa verið virkjuð að hluta eða öllu.
Hér fyrir neðan eru ítarlegri upplýsingar um valin svæði og virkjunarhugmyndir. Hægt er að skoða svæðin út frá flokkun rammaáætlunar og eftir staðsetningu.