Rammaáætlun - hvað er það?

Rammaáætlun - hvað er það?

Allt fram til ársins 1999 vissu Íslendingar almennt lítið um fyrirbæri á borð við ?rammaáætlun um vernd og  nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðvarma?.

Hér á landi hafði verið ráðist í virkjanir eftir því hvar virkjanaaðilum og stjórnmálamönnum þótti það fýsilegast hverju sinni og um virkjanamöguleika landsins í heild sinni var engin yfirsýn grundvölluð á skipulegri vísindalegri þekkingu varðandi vistkerfi, lífríki, landslagsheildir, jarðfræði, umhverfisáhrif og samfélagsleg áhrif.

Þegar iðnaðarráðuneytið gaf út rit um virkjanamöguleika í vatnsafli og jarðvarma 1992 voru sjónarmið varðandi hagkvæmni og virkjanatækni í fyrirrúmi en lítið minnst á umhverfisáhrif, hvað þá að bera saman hagkvæmni og umhverfisáhrif mismunandi virkjunarhugmynda á grunni vísindalegra gagna.

Þetta mál átti sér þó áralangan aðdraganda, allt frá árinu 1975 þegar Hjörleifur Guttormsson og Vilhjálmur Lúðviksson fóru á vegum náttúruverndarráðs til Noregs til að kynna sér þessi mál þar.

Hjörleifur lagði fram tillögu á Alþingi veturinn 1985-1986 um gerð áætlunar um verndun vatnsfalla og jarðhita sem leggja skyldi fyrir þingið. Raða skyldi virkjunarhugmyndum, bæði vatnsafli og jarðvarma, í forgangsröð með hliðsjón af umhverfisáhrifum þeirra.

Hjörleifur fór í kynnisferð til Noregs 1988 og í framhaldi af því lagði hann fram tillögu á þingi um áætlun að norskri fyrirmynd þar sem kannað yrði annars vegar hagrænt gildi virkjunarhugmynda og hins vegar umhverfisáhrif þeirra og verndargildi virkjanasvæðanna, sem lögð var fyrir þing ári síðar. Var tillagan samþykkt vorið 1989 sem ályktun Alþingis og send nýstofnuðu umhverfisráðuneyti 1990.

Starfshópur var skipaður af umhverfisráðherra 1993, og 1995 var sett fram hugmynd um að gera rammaáætlun um virkjun vatnsafls og jarðvarma og ári síðar birt tillaga um slíka áætlun varðandi vatnsföll en ekki jarðvarmasvæði.

Eftir að þetta mál hafði verið að velkjast fyrir stjórnvöldum í meira en áratug kom loks að því að vinna hófst árið 1999 við áætlun um nýtingu og verndun vatnsafls, en ekki jarðvarma undir forræði iðnaðarráðuneytisins í samráði við umhverfisráðuneytið, öfugt við það sem var í Noregi.

Fram að þessu hafði þetta mál verið lítið kynnt í fjölmiðlum en í sjónvarpsþættinum ?Út vil ek? 1998 greindi talsmaður Sambands rafveitna Vestur-Noregs frá því hvernig Norðmenn hefðu framkvæmt slíka heildaráætlun um nýtingu vatnsafls í landi sínu með því að leggja í ítarlegar rannsóknir á öllum hliðum virkjunarhugmyndanna bæði hvað varðaði hagkvæmni, umhverfisáhrif og samfélagsleg áhrif og beita markvissum samanburði til að finna út hvaða virkjanir kæmu best út þegar hagkvæmni og umhverfisáhrif voru borin saman.

Notuð var stiga- eða einkunnagjöf um hverja virkjunarhugmynd á þann hátt að ekki var víst að há einkunn varðandi hagkvæmni og stærð virkjunarhugmyndar réði eingöngu ef hin neikvæða einkunn varðandi umhverfisáhrif væri hærri.

Þannig gæti minni og óhagkvæmari virkjun komið betur út, ef umhverfisáhrifin væru mjög lítil, heldur en stærri og hagkvæmari virkjun með miklum neikvæðum umhverfisáhrifum.

Í framhaldi af þessu kom sérfræðingur norska umhverfisráðuneytisins á þessu sviði til Íslands og lýsti hinni norsku aðferð.

Hann upplýsti meðal annars, að jafnvel þótt Norðmenn hefðu staðið nokkuð vel að vígi varðandi rannsóknir á náttúru og lífríki á hugsanlegum virkjanasvæðum sem og áhrifum virkjanaframkvæmdanna á samfélagið, hefði þessi vinna tekið mörg ár.

Hann taldi líklegt að hér á landi tæki þetta enn lengri tíma vegna umfangs verksins og smæðar þjóðarinnar, einkum vegna þess að auk vatnsaflsvirkjana væri hér einnig um jarðvarmavirkjanir að ræða, og að íslensk náttúra væri miklu fjölbreyttari og óvenjulegri en norsk. Þegar vinna hófst loks við rammaáætlun var ljóst að mjög mikið skorti víða á líffræðilegar, landfræðilegar og jarðfræðilegar rannsóknir auk áhrifa á samfélagið og atvinnuvegina, svo sem ferðaþjónustu.

Var því ákveðið að skipta verkinu í áfanga og fá fyrst fram grófar niðurstöður eða frummat varðandi helstu virkjunarhugmyndir vatnsfalla en klára síðan áfangana einn af öðrum.

________________________________________

Hvort sem það var tilviljun eða ekki var það frummat á Kárahnjúkavirkjun, að hún væri önnur tveggja virkjunarhugmynda landsins sem hefði mest neikvæð óafturkræf umhverfisáhrif, ekki gert opinbert fyrr en rétt eftir að búið var að semja við Alcoa um virkjunina og samþykkja endanlega á Alþingi og í Borgarstjórn Reykjavíkur að hefja virkjanaframkvæmdir.

Er það áhugaverð spurning hvort á einhvern hátt hefði verið öðruvísi staðið að ýmsum framkvæmdum hér á landi, ef við hefðum þá verið komin jafn langt og Norðmenn í þessum málum.

Vinna við rammaáætlun hefur verið umfangsmikil og hefur hún farið fram undir samræmdri yfirstjórn í hópum sem hafa einbeitt sér að ákveðnum sviðum hennar. Hefur verið reynt að skipa hópana þannig að fá fram sem bestar upplýsingar og sjónarmið byggð á reynslu og rannsóknum.

Vegna þessarar vinnu hafa ýmsar rannsóknir verið í gangi en ljóst er að mörg ár munu líða þar til þeim verði öllum lokið.

Vinnan við rammaáætlun er nú komin á það stig að á næstunni á að leggja fyrir Alþingi þingsályktunartillögu, sem felur í sér samanburð á 80 virkjunarhugmyndum og flokkun á þeim í þrjá flokka, verndarflokk, biðflokk og nýtingarflokk; með hliðsjón af 2. áfanga rammaáætlunar: vernd og nýting. Er hugmynd stjórnvalda að Alþingi taki bindandi afstöðu til slíkrar flokkunar.

________________________________________

Í biðflokk hafa einkum farið þær virkjunarhugmyndir þar sem rannsóknum þykir það ábótavant eða skortur á gögnum, að ekki sé hægt að ákveða hvort virkja skuli eða ekki.

Lengst af hefur rammaáætlun verið á forræði iðnaðarráðuneytisins og hafa hugtakaheiti markast nokkuð af því, svo sem heitin verndarflokkur og nýtingarflokkur, sem hafa verið gagnrýnd, vegna þess að með þeim sé látið að því liggja að aðeins orkuöflun geti falið í sér nýtingu en ekki verndun.

Réttara væri að tala um verndarnýtingu og orkunýtingu.

Gott dæmi um að þetta tvennt hafi vegist á, er virkjun Gullfoss sem tekist var á um í kringum 1920. Ef hann hefði verið virkjaður hefði falist í því orkunýting, en niðurstaðan varð verndarnýting sem líkast til gefur meiri tekjur og arð en orkunýting hefði gert.

Gildi rammaáætlunar um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði verður seint ofmetið, burtséð frá mismunandi skoðunum á forsendum í einstökum atriðum og úrvinnslu á þeim, sem ævinlega geta verið álitaefni.

Væri athyglisvert að skoða hverju það hefði breytt er vinna við hana hefði hafist meira en áratug fyrr, þegar hugmyndir um hana voru settar fram á Alþingi.

Með henni er skapaður vitrænn og skipulegur farvegur fyrir nauðsynlega upplýsingaöflun og skoðanaskipti sem eru grundvöllur siðaðs lýðræðisþjóðfélags sem hugar að jafnrétti kynslóðanna, hvernig land við viljum byggja til framtíðar og að hvers konar þjóðfélagi við viljum leggja grundvöll fyrir afkomendur okkar.

Hægt er að fá frekari upplýsingar um rammaáætlun á vef rammaáætlunar.

Opið kynningar- og samráðsferli var um rammaáætlun en því lauk 11. nóvember 2011. Alls bárust 225 umsagnir, þar á meðal umsögn sem Framtíðarlandið tók þátt í, ásamt 12 öðrum félagasamtökum sem öll starfa að náttúruvernd.

Ómar Ragnarsson


Svæði

  • Facebook
  • Vimeo
  • Soundcloud
  • RSS
moya