Væntumþykja gagnvart náttúrunni

Væntumþykja gagnvart náttúrunni
Þjórsá. Ljósmyndari: Thorsten Henn

Væntumþykja gagnvart náttúrunni

Gildin í lífinu eru dyggðir, tilfinningar og viðhorf sem við lærum og æfum til að verða betra fólk. Gildin í samfélaginu eflum við og styrkjum til að gera samfélagið betra. Við reynum á sama tíma að kveða niður brestina, heimskuna, grimmdina og eyðileggingarmáttinn sem knýr á.

Gildin í náttúrunni felast í því að bæta samband mannverunnar við náttúruna, efla með okkur virðingu og ábyrgðarkennd gagnvart henni.

Segja má að samband mannveru við náttúruna sé í uppnámi um þessar mundir og verkefnið framundan felist í því að finna jafnvægi og farsæla braut. En hvernig má vinna að því?

Siðfræði náttúrunnar fjallar ekki aðeins um skilgreinda mælikvarða um rétt og rangt, góða og ranga hegðun gagnvart náttúrunni heldur einnig um að rækta væntumþykju, virðingu og vinsemd: að finna gleði þegar sambandið styrkist, að bera virðingu fyrir heilbrigðri náttúru og að verða dapur þegar sambandinu er raskað.

Mannveran er hluti af náttúrunni og ætti því að geta ræktað væntumþykju gagnvart henni, og ef það tekst, vex virðingin gagnvart auðlindum hennar og viljinn til að öðlast þekkingu á henni og umgangast af varkárni. En ef hlýjan hverfur, þá hverfur blíðan líka.

Það gæti verið ósnert víðerni, það gætu verið heimkynni dýra, það gæti verið heilt vistkerfi, það gæti verið gróðurlendi, fossaröð, fornt stöðuvatn, tiltekið landslag og það gæti verið háhitasvæði í hættu gagnvart mannlegu kuldakasti.

Mannskepnan gortar oft af því að vera eina siðræna veran á jörðinni, en það er ofsögum sagt, því hjá ýmsum dýrahópum má greina siðrænt atferli eins og umhyggju, samkennd, virðingu, ábyrgð, sorg, hópkennd, hjálpsemi og einnig fórnfýsi. Íslendingar ráðstafa ekki landsvæðum undir orkunýtingu einungis af siðrænum ástæðum eða vegna ábyrgðarkenndar, heldur af hagrænum ástæðum og vegna búsetuskilyrða.

Voðinn er vís ef strengurinn milli manns og náttúru slitnar og sambandið verður firringu að bráð, ef mannveran setur sig á háan hest og gleymir sér yfir náttúru á korti á teikniborði.

Náttúran á teikniborðinu

Áhuginn og krafturinn fer oft allur í það að bæta efnahaginn líkt og ekkert annað vegi þyngra í þessum heimi. Okkur hættir stórlega til að ofmeta hagkerfið og vanmeta vistkerfið. Við gerum ráð fyrir hagvexti án endimarka og sköpum okkur líferni án samhengis við náttúruna, líkt og hún sé  ekki hluti af okkur. Við fórnum vistkerfi fyrir hagkerfi víða um Jörð, vegna þess að það virðist henta okkur um hríð.

Náttúrusvæði á fullnýttu Íslandi flakka nú á milli orkunýtingarflokks, biðflokks og verndarflokks. Við flokkum, leikum okkur og náðum svæði eða nýtum, án virðingar og vinsemdar. Við segjum:
„Við náðum þig Neðri-Þjórsá!“ „Við náðum þig Dettifoss – í bili! Þú átt það ekki skilið en það hentar okkur núna, þú varst á dauðalistanum en við náðuðum þig “ „Við ónáðum þig Urriðafoss og við tökum þig af lífslistanum Dynkur – þú verður ekki lengur til – nema undir okkar stjórn.“

Þessar setningar hljóma undarlega en staðan er jafnvel verri. Tæplega níutíu svæði á Íslandi eru kölluð virkjanakostir sem mögulega verður þá raskað og nýttir til orkuframleiðslu. Náttúran liggur berskjölduð á teikniborðinu og henni á að raska til og frá – eða ekki, svæði sem voru í verndunarflokki flytjast óvænt í nýtingarflokk og jafnvel svæði í þjóðgörðum – allt eftir duttlungum og hagsmunasamningum.

Nýlega dró Orkustofnun til baka þrjá virkjanakosti af 50 sem búið var að senda til verkefnisstjórnar þriðja áfanga rammaáætlunar. Ástæðan var sú að stofnunin notaði ekki nýjustu kort af Vatnajökulsþjóðgarði við vinnslu á virkjunarkostunum. Þessi vandræðalegi gjörningur vakti grun um sambandsrof mannskepnunnar við náttúrusvæðin.

Skeytingarleysið er óvinurinn

Skeytingarleysi mannsins er versti óvinur náttúrunnar, umhyggjuleysi, andvaraleysi og kæruleysi. Að vera sama um víðernin, að vera sama um miðhálendi Íslands og að líta aðeins á það með virkjun í huga er landinu okkar stórhættulegt. Að láta land sem er mótað af eldvirkni og jöklum, samspili elds og íss í árþúsundir, vera háð tímabundnum hagsmunum virkjanasinna, er ekki vitnisburður um virðingu. Það er vítavert ástleysi.

„Hálendi Íslands, hjarta landsins, er eitt stærsta landsvæði í Evrópu, sunnan heimskautsbaugs, sem hefur aldrei verið numið af mönnum. Sérstaða svæðisins felst í einstakri náttúru, gróðurvinjum, jarðfræði og landmótun, einstöku samspili elds og íss, óviðjafnanlegum andstæðum í landslagi og víðernum sem eru talin meðal síðustu stóru víðerna Evrópu.“ (Landvernd).

Ákvörðun um að hrinda virkjanakosti í framkvæmd styðst ekki einungis við rök um aukin atvinnutækifæri, tekjur, búsetuskilyrði og viðskipti. Ákvörðun um virkjanakost þarf fyrst og fremst að setja í samhengi við náttúruna, landslagsheildir, lífríki og vistkerfi sem varasamt er að raska. Hvað merkir þessi „kostur“ í stóra samhenginu?

Enn eru sterkar líkur á því að alvarleg óafturkræf slys verði gerð í gegndarlausri ásókn í óviðjafnanleg verðmæti sem íslensk náttúru geymir. Af þeim sökum þarf nauðsynlega að efla og rækta gildin í náttúrunni með mannfólkinu. „Efla tengsl fólks við landið, þekkingu og samvinnu landsmanna með auknum almannarétti,“ eins og Guðmundur Páll Ólafsson orðaði það, „að varðveita fegurð fjölbreytileikans í náttúru landsins og vatnafari Íslands.“ (Vatnið í náttúru Íslands).

Gerum ávallt ráð fyrir harðri baráttu gegn ásókn í náttúruauðlindir. 

Sambandið ekki aðeins vitrænt

Og sambandið við náttúruna er dýpra. Við glímum við rök og sjónarhorn til að skilgreina mörk og til að kanna möguleika en væntumþykja gagnvart landinu felur einnig í sér víðtækara samband, til dæmis þegar taugakerfið og hugurinn nemur fegurðina, þegar einstaklingur stendur agndofa og orðlaus gagnvart óvæntri hrikafegurð. Sambandið við náttúruna er því ekki einungis vitrænt, hagrænt, siðrænt, það er einnig af öðrum toga.

Siðfræði náttúrunnar snýst ekki einungis um rannsókn á boðum og bönnum, dyggðum og löstum og verðmætum heldur einnig fegurð og væntumþykju. Sambandið við náttúruna er oftast smækkað niður í eitthvað skiljanlegt en sambandið er alls ekki alltaf hversdagslegt heldur byggist það einnig á upphafningu andans. Við hrífumst og andinn lyftist upp og dýpri merking tilverunnar opinberast. Þessar stundir veita fólki kraft til að lifa af meiri ákafa og fyllast þakklæti. En þetta undur gerist sennilega æ sjaldnar því maðurinn hefur aldrei fyrr verið svo fjarlægur heimkynnum sínum, náttúrunni.

Gunnar Hersveinn - www.lifsgildin.is

 


Svæði

  • Facebook
  • Vimeo
  • Soundcloud
  • RSS
moya