Flýtilyklar
Tækni og hæglæti
Tækni og hæglæti
Allt sem er verður eitthvað annað. Homo sapiens er orðinn homo technologicus. Það er ekki ný frétt en ef til vill mætti gefa þessari breytingu meiri gaum og rannsaka hvaða áhrif það hefur á umhverfið og náttúruvernd.
Hraðinn og magnið er leynivopn tæknimannsins í árás sinni á Tímann sjálfan, hann reiðir sig ekki lengur á eigin heilastarfsemi. Tæknimaðurinn skapar nýjar og óvæntar veraldir og fólki er gert fært að ferðast á milli staða, eiga hindrunarlaus samskipti milli heimsálfa og himintungla og tala saman óháð stað og stund, óháð nánd og efni.
Tæknisamfélagið breytir öllum sem lifa og hrærast í því og skapar nýtt mannkyn. Tíminn í huga þess er viðráðanlegur því tæknin styttir og þurrkar vegalengdir út og gerir líkamleg samskipti á tilteknum stað óþörf. Orð og setningar þjóta hjá á ljóshraða í stað þess að berast rituð í bréfum á hestum milli landshluta eða með skipum yfir höfin.
Tækniborgarsamfélag gaf borgarbúum tækifæri til að yfirgefa náttúruna og stíga endanlega inn í heim tækninnar. Börn náttúrunnar urðu jafnskjótt jaðarhópur og homo technologicus varð nýtt viðmið á rétt og rangt, gott og vont. Farsældin varð tæknivædd og hið tignarlega varð manngerð náttúra líkt og fossinn Hverfandi í Kárahnjúkastíflu: ?Þegar yfirfallið rennur úr lóninu myndast fossinn Hverfandi, sem er tilkomumikill, en hann hverfur þegar yfirborð lónsins tekur að lækka á ný.?*1
Tækniborgarbúinn glataði fljótlega sambandinnu við náttúruna. Raflýsing þurrkaði út greinarmun dags og nætur. Störfin urðu óháð árstíðunum. Athafnir, viðburðir og verkefni urðu óháð árstíðum og manninum í sjálfsvald sett hvernig þeim er raðað niður á dagatalið. Veðrið hefur heldur ekki mikil áhrif því ferðir milli húsa eru í raun óþarfar. Þjónustan er góð og tæknieldhúsið getur jafnvel sjálft pantað nýjar vörur heim að dyrum.
Tæknimaðurinn sigraði náttúruna og á tæknilausnir við flestöllum hennar lögmálum. Hún getur ekki komið manninum lengur á óvart og því virðast flestallar aðstæður viðráðanlegar og leita má tæknilegra lausna á hverju því sem truflar eða vekur ugg þótt eina ráðið gegn gróðurhúsaáhrifum sé að temja sér nægjusemi.
Vandinn er að nokkrir mannlegir gallar blómstra í tæknisamfélaginu og nokkrar góðar dyggðir fölna. Hroki tæknimannsins gagnvart náttúrunni er vaxandi. Náttúruöflin eru sögð aðeins verkefni til að leysa. Segja má að með því að virkja og breyta náttúrusvæðum leggi maðurinn þau undir sig, geri þau að sínum. Þau verða þá svæði spunnin úr náttúru og tækni og verða einskonar náttúrulegar sæborgir.
Dyggðir sem glatast í vestrænum tæknisamfélögum eru t.a.m. þolinmæði, biðlund, nægjusemi og virðing fyrir náttúrunni. Markaðurinn í tæknisamfélaginu býður upp á skeytingarlausa sölumennsku sem snýst um að fá allt strax og selja það síðan.
Tæknimaðurinn geysist áfram á leifturhraða þótt jaðarhópar reyni að spyrna við fótum með hæglæti. En hvað með náttúruvernd í ljósi hraða- og tæknisamfélagsins? Svara þyrfti nánast öllum sviðum mannlífsins og borgarlífsins með hæglæti.
Náttúruvernd snýst ekki aðeins og einungis um að bjarga óviðjafnanlegum svæðum frá eilífri glötun í gin tækninnar heldur einnig um að varðveita nauðsynlegt samband mannsins við náttúruna sjálfa.
Tæknin og hraðinn hafa fært okkur margt en því miður færa þau okkur jafnframt fjær náttúrunni. Það sem okkur skortir er hæglæti.
*1 http://www.visir.is/fossinn-hverfandi-birtist-a-ny/article/2012708089983
Gunnar Hersveinn - www.lifsgildin.is