Flýtilyklar
Mótmæli er dyggð
Mótmæli er dyggð
Eftir þrotlausa þjáningu, gegndarlausa sefjun, blekkingu, heimsku, illsku og skeytingarleysi, eftir tvær heimstyrjaldir dauða og eyðileggingar í Evrópu og víðar sammæltumst við loksins, eftir aldir misréttis og misskipingar, um að allar manneskjur fæddust jafnar og að okkur bæri að vernda hvert annað hvar sem tækifæri gæfist fyrir ofbeldi. Mótmæli gegn hvers konar hegðun sem felur í sér ofríki og ofstæki mega þó aldrei hætta!
Eftir 1945, eftir afhjúpun áróðursmeistara, lygara, einræðisherra, illmenna, morðingja og kúgara þessa heims, fengu mildari raddir borgara loks að hljóma, þeirra sem börðust fyrir réttindum og virðingu allra án aðskilnaðar. Almannahagsmunir vógu þyngra en einkahagsmunir og auðævum var dreift á ný til þjóða. Öll börn áttu rétt á vernd, gæðum og greiðan aðgang að menntun og Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna varð alþjóðleg árið 1948.
Óttinn
Versti óvinur mannréttinda er óttinn, óttinn við vald kúgarans eða jafnvel vald skriffinnskunnar. Annar illvígur óvinur er skeytingarleysið, að vera sama, að finna ekki til með öðrum, að rækta ekki með sér samkennd. Mótmæli gegn kúgun, yfirgangi, ofbeldi, einræði, blekkingu og misnotkun valds eru dyggð og einnig mótmæli gegn sinnuleysi og slæmum venjum. Þær manneskjur sem standa vörð um mannréttindi eiga lof skilið, þau sem berjast fyrir jafnrétti, réttlæti og jöfnuði eru ævinlega hugrökk því þau láta óttann ekki buga sig.
Mótmæli geta sprottið upp vegna réttlátrar reiði en líkt og aðrar dyggðir þarf að æfa þau. Tökum því undir með Stéphane Hassel sem var í frönsku andspyrnuhreyfingunni og skrifaði bókina Mótmælið öll: ?Finnið ykkar eigin ástæðu til að mótmæla, leggist á sveif með þessum mikla straumi mannkynssögunnar.? (bls. 30. Skrudda 2012). Hver persóna þarf að móta hugsjón sína um betri heim án kúgunar, skeytingarleysis og ofbeldis og mótmæla því sem stendur í vegi fyrir réttlæti.
Mótmæli
Við mótmælum því sem ofbýður okkur, við mótmælum þegar eyðileggja á það sem við erum stolt af eða berum virðingu fyrir. Mótmæli eru ekki aðeins réttlát reiði heldur fylgja þeim kraftur og gleði ef þau áorka einhverju. Sú manneskja sem mótmælir er stolt og hugrökk en ekki aðeins reið. Friðsamleg mótmæli fela stundum í sér brot á einstaka reglum, hefðum og siðum en það getur verið skiljanlegt t.d. ef venjan felur í sér mismunun.
Dyggðir
Dyggð er siðferðilegur eiginleiki sem hægt er að æfa með bóklegum og verklegum lærdómi. Sú sem kemur böndum á ótta sinn gagnvart valdi og sú sem ræður við reiði sína gagnvart yfirgangi og skeytingarleysi og dirfist að stíga fram og mótmæla er hugrökk manneskja. Mótmæli eru því lofsverð/ar dyggð/ir. Mótmæli eru ef til vill safn dyggða þar sem við sögu koma m.a. hugrekki, réttlætiskennd og gagnrýnin hugsun.
Náttúruvernd
Mótmæli borgaranna kveða niður kúgun og yfirgang en ekki aðeins gagnvart mönnum, heldur einnig dýrum og villtri náttúru. Náttúruverndarar myndu ekki áorka miklu án mótmæla. Hlutverk þeirra er m.a. að standa vörð um villta náttúru. Maðurinn hefur raskað svo yfirþyrmandi mörgu í náttúrunni að það sætir furðu að hann skuli enn sífellt finna nýja staði til að manngera. Jafnvel ósnortin strandlengja, fjörður án þverunar og vegalaust hraun er á teikniborðinu líkt og hið náttúrugerða sé ekki nógu mikils virði.
Hlutverk náttúruverndara er einnig að kenna og efla virðingu gagnvart landslagi, stöðum, heimkynnum annarra og gagnvart náttúrunni allri, jafnt smáu sem stóru og út frá mörgum sjónarhornum. Náttúruverndarar líkt og aðrir mótmælendur efast, gagnrýna, óska eftir endurskoðun, upplýsa, fræða og kæra.
Sú mannvera sem finnur innri knýjandi þörf til að mótmæla nemur jafnframt í hjarta sínu það sem hún metur mikils virði. Það væri ekki fagurt um að litast í heiminum ef mótmæla borgaranna nyti ekki við. Mótmæli þarf því að æfa sem dyggð! ?Finnið ykkar eigin ástæðu til að mótmæla,? ráðlagði Stéphane Hassel (1917-2013) öllum yngri kynslóðum. Þetta merkir jafnframt bæði ígrundun á góðum ástæðum til að mótmæla og hugrekki til að stíga fram.
Gunnar Hersveinn www.lifsgildin.is