Flýtilyklar
Krýsuvík í sóunarflokki
Krýsuvík í sóunarflokki
Við stöndum í biðröð eftir einhverju eða bíðum í röð á símalínu: þú ert fjórtándi í röðinni! Við bíðum eftir tíma, bíðum eftir að fá aðgang eða inngöngu eða að sleppa aftur út. Við röðum okkur upp ? eða ekki. Hvern einasta dag bíðum við eftir einhverju og sennilega bíða einhverjir eftir okkur.
Bið getur falið í sér eftirvæntingu, kvíða, streitu, gleði eða ugg. Hún er alls ekki tóm eða tilgangslaus, hún er full af lífi. Bið þarfnast þolinmæði og þrautsegju. Hún kallar á þolgæði gagnvart hindrunum, áskorunum, töfum og framvindu. Biðlund þarf til að meta aðstæður, tíma og viðbrögð. Bið er rúm til að íhuga og endurmeta - áður en það verður of seint.
Við bíðum oft eftir að eitthvað renni upp eða líði hjá í náttúrunni. Við bíðum eftir sólarupprás eða sólarlagi, eitthvað byrji, endi eða snúist í eilífðri hringrás tímans. Vind lægi eða að það gefi byr í seglin. Það rigni eða stytti upp. Bið er lífsháttur en sá sem þurrkar út biðina í lífinu sínu er sagður lifa í núinu.
Náttúran bíður ekki, það er flóð eða fjara, hún líður, rís og hnígur, ólgar og róast. Hún býr yfir auðlindum sem gera svæði lífvænleg og vistvæn fyrir mannfólk og aðrar lífverur ? eða ekki, jörðin er frjósöm eða hrjóstug. Við fáum hugmynd um virkjun, nýtum náttúrusvæði og verndum eða setjum þau í biðflokk:
?Í biðflokk falla virkjunarhugmyndir sem talið væri að þurfi frekari skoðunar með betri upplýsingum svo meta megi hvort þær ættu að raðast í nýtingarflokk eða verndarflokk.? (Rammaáætlun, 2. áfangi).
Mannstæknin snýst oft um að stytta eða þurrka út bið og að fullnægja óskum fólks umsvifalaust: núna! Bið virðist óbærileg á Vesturlöndum þar sem flestallt snýst um hraða samhliða hinni gegndarlausu framþróun. Virkjunarhugmyndum er raðað í flokka nýtingar og verndar. Nýting er sögð framþróun. Biðflokkur er á milli ... tannanna á fólki, milli ríkisstjórna, milli okkar.
KRÝSUVÍK BÍÐUR EKKI
Krýsuvík* er náttúrusvæði á milli vonar og ótta, náttúra á fjármálamarkaði, náttúra milli nýtingar og verndar. Svæðið stendur eða fellur, eyðist eða dafnar ? ekki aðeins af eigin mætti heldur duttlungum íbúanna sem láta sér ekki nægja að þiggja húshita. Náttúruperla á biðlista er ekki góð staða - en staða Krýsuvíkursvæðisins er enn verri því það er bæði í bið- og nýtingarflokki.
Háhitasvæðin á Reykjanesskaganum eru ekki aðeins náttúruundur heldur veigamikil forsenda lífsgæða komandi kynslóða frá Hengli til Reykjanestáar. Hvernig má vera að forsendan, jarðvegurinn, jarðhitinn sé settur á bið- og nýtingarlista stóriðju? Hvernig geta örfáir af einni kynslóð dirfst að eyða auðlind, tekið feikilega áhættu og skapað með því hundrað ára einsemd fyrir aðra? Virkjunarhugmyndirnar í Krýsuvík eru alls ekki sjálfbærar og útlit er fyrir að orkan úr svæðunum klárist á fáeinum áratugum. Það er sóun á auðlind - ekki nýting.
Bíðum ekki eftir röngum ákvörðunum. Austurengjar og Trölladyngja ? það er ekki eftir neinu að bíða: föllum frá öllum áformum um virkjun. Sveifluháls og Sandfell ? biðin ætti að vera á enda. Þessar virkjunarhugmyndir ættu að falla í flokk sem ekki er nefndur: Sóunarflokkur.
Það er hlutverk þeirra sem fylgja sjálfbærni og vinna gegn skammsýni: að verja Krýsuvík. Sú vörn er hafin. Við höfum íhugað virkjanahugmyndir nógu lengi á Krýsuvíkursvæðinu. Biðlund er vissulega dyggð en biðin er á enda.
Bíðum ekki boðanna, álver geta beðið! Slík bið er betri en bráðræði.
Gunnar Hersveinn - www.lifsgildin.is
*?Krýsuvíkursvæðið nær yfir nokkur minni jarðhitasvæði sem tengjast eldstöðvakerfi sem venjulega er kennt við Krýsuvík. Meginsvæðin eru Sveifluháls, Austurengjar, Trölladyngja og Sandfell. Jarðhita er jafnframt að finna við Syðri Stapa í Kleifarvatni, við Köldunámur og við Hverinn eina.?
Heimildamynd um Krýsuvík