Flýtilyklar
Hernaðurinn gegn hálendinu
Hernaðurinn gegn hálendinu
Hernaðurinn gegn hálendinu vekur skylduna til að mótmæla eyðileggingu, skylduna til að standa vörð um verðmætin og skylduna til að setja málið í rétt samhengi, upplýsa og afhjúpa. Sóun er röng og það er skylda þess sem veit, að upplýsa um vá, vara við hættulegri hegðun og grípa til varna.
Skyldan knýr á
Skyldur eru af ýmsum toga. Það er skylda að starfrækja skóla og það er skylda að ganga í skóla og mennta sig. Það er skylda að greiða skattinn og borga launafólki. Það er skylda að koma náunga sínum í nauð til hjálpar og það eru skyldur í fjölskyldum. Skyldur eru lagalegar og/eða siðferðilegar.
Hver manneskja ber margvíslegar skyldur sem knýja á með ólíkum hætti. Skyldan getur verið sett af ríkisvaldinu, hún getur sprottið af hlutverki og stöðu einstaklings en einnig af hugsjón og skilningi á samhengi hlutanna. Ef heimskan ræður för felst rík skylda í að gera tilraun til að kveða hana niður og upplýsa um hættuleg áform og hegðun.
Skyldan getur verið gagnvart náttúru lands, hún getur beinst að hálendi Íslands. Ef ómetanleg verðmæti eru um það bil að verða græðgi og heimsku að bráð þá felst skyldan í því að verja þau ? til dæmis með kröftugum mótmælum og upplýsingum.
Allir bera margar skyldur en enginn getur rækt þær allar vel. Hver borgari þarf því að velja sér siðferðilegar skyldur til að sinna af alúð, þær gætu til dæmis fallið undir umhverfis-, uppeldis-, jafnréttis- eða heilbrigðismál og hvers konar baráttu gegn misrétti og ofbeldi.
Skyldur kveða ekki aðeins á um aðgerðir heldur einnig að gera ekki eitthvað, særa ekki aðra, misbjóða ekki öðrum, beita ekki ofbeldi, ekki að eyða eða deyða. Hún gæti einnig falist í því að standa vörð um eitthvað, vernda og hlúa að og hún gæti snúist um að gera eitthvað afgerandi, breyta einhverju. Skyldan getur jafnvel togast á við aðra lagalega skyldu og borgarinn talið rétt að stíga á og jafnvel yfir strik réttvísinnar.
Náttúruverndarinn
Mótmæli eru ekki alltaf val, það er vissulega mannkostur að hafa dug í sér til að andmæla ofríki, en andspyrnan getur líka orðið skylda. Sá sem hefur valið sér málaflokk og vill vera náttúruverndari tekur sér um leið þá skyldu á herðar að mótmæla, standa vörð um tiltekin verðmæti, hlúa að eða rétta hlut með aðgerðum.
Aðstæður, staða og hefðir ráða því oft hvort sú skylda telst lagaleg eða siðferðileg en segja má að það sé borgaraleg skylda að mótmæla heimsku, kúgun, valdhroka og hvers konar aðgerðum sem valda skaða landi og þjóð. Það er skylda gagnvart fortíð og nútíð og gagnvart næstu kynslóð.
Það er bæði siðferðileg og lagaleg skylda að hjálpa náunganum í nauð, en það er jafnframt skylda að vernda náttúruna fyrir eyðileggingu og koma í veg fyrir sóun á auðlindum. Sóun er ávallt röng. Fullgildur borgari mótmælir, hann situr ekki bara hjá og er skeytingarlaus, heldur ber honum skylda að taka þátt og forða því að næsta kynslóð þurfi að súpa seyðið af eyðileggingunni.
Guðmundur Páll Ólafsson náttúrufræðingur leit á það sem skyldu sína að mótmæla að Fögruhverum yrði sökkt í þágu virkjunarframkvæmda. Hann mótmælti og hann vakti athygli á eyðileggingunni með því að fremja gjörning á staðnum. Breytni eftir hann hefur æ síðan verið í hávegum höfð af náttúruverndurum. Hann mótmælti, upplýsti og framkvæmdi.
Það er skylda náttúruverndara að veita aðhald, upplýsa og skapa umræðu gagnvart verkefnum sem skaða meira en þau bæta. Það er ekki aðeins lofsverð hegðun að gera það heldur skylda sem krefst oft hugrekkis og hugkvæmni. Verkefnið er það viðamikið um þessar mundir að það krefst verkaskiptingar, sumir upplýsa, aðrir skapa umræðu og þriðji hópurinn stundar aðhald með mótmælum.
Rangt og rétt
Særum ekki, eyðum ekki, gerum ekki það sem er rangt, treystum ekki þeim sem eyða ómetanlegum verðmætum í nafni framþróunar eða ofmati á eigin mætti. Eyðilegging á hálendi Íslands á ekki að vera ákvörðunarefni einnar kynslóðar eða ríkisstjórnar. Staða hálendis Íslands er tvísýn og uggvænleg um þessar mundir. Það er því ekki lengur val heldur skylda allra núlifandi náttúruverndara að standa vörð um hálendið. Þekkingin er fyrir hendi og frekari eyðilegging og sóun er röng.
Greinarmunurinn milli þess hvað er rangt og hvað er rétt gagnvart hálendi Íslands verður æ skýrari með tímanum því víðernin þar hafa dregist saman um tæplega 70% frá árinu 1936. Hálendið þarf ekki lengur að njóta vafans því vafinn er ekki lengur fyrir hendi heldur aðeins blákaldar staðreyndir. Sá sem leggur við hlustir heyrir hjarta landsins slá og um leið vaknar skyldan.
Hernaðurinn gegn hálendinu vekur skylduna til að mótmæla eyðileggingu, skylduna til að standa vörð um verðmætin og skylduna til að setja málið í rétt samhengi, upplýsa og afhjúpa. Núna er það siðferðileg skylda sem knýr á og ef við hlýðum henni ekki munu leifarnar af hálendi Íslands aðeins birtast sem sýnishorn úr horfnum heimi.
Dæmi til skýringar
Reykjavík er vatnsrík borg og yfirleitt er horft framhjá sóun á neysluvatni. Ef neysluvatn dygði aftur á móti tæplega í sólarhring á enda yrðu til siðareglur sem myndu kveða á um ábyrga notkun og virðingu gagnvart ferskvatni svo allir fengju að njóta. Ef neysluvatnið dygði ekki til að svala öllum alla daga þá yrðu sett ströng lög með reglugerðum og refsingum til að sporna gegn misnotkun. Skömmtun á vatni handa hverjum og einum yrði siðferðilega rétt og lagaleg skylda en öll sóun á þessari dýrmætu auðlind yrði röng.
Eins er með hálendi Íslands. Áform um að skerða það enn frekar með virkjunum og lónum og skera það í sundur með línumöstrum eru hrópandi röng en áform um að vernda það eru rétt. Ný skýrsla Orkustofnunar um virkjanakosti er þáttur í hernaði gegn hálendi Íslands og áform um malbikaða hálendisvegi með raflýsingu og háspennulínum Landsnets yfir Sprengisand og annað ómetanlegt land eru alröng.
Niðurstaðan
Tíminn er liðinn. Hlífum hálendinu við frekari röskun, verndum miðhálendið með lögum um þjóðgarð, eflum ábyrgð og virðingu fyrir þessu undri veraldar. Náttúruverndarar sem vilja leggja hálendinu lið geta skráð sig á vefnum www.hjartalandsins.is hjá Landvernd og skoðað Náttúrukortið á vef Framtíðarlandsins.
Gunnar Hersveinn www.lifsgildin.is