Heiðarleiki og kænska

Heiðarleiki og kænska

Heiðarleiki er hátt skrifuð dyggð í íslensku samfélagi. Allir vilja vera kenndir við heiðarleika, jafnvel þeir sem vita ekki hvað orðheldni er. Sá sem á engan hátt getur talist heiðarlegur segist iðulega vera slíkum kostum búinn og leggur margt á sig til að baða sig í ljósi heiðarleikans.

?Heiðarleiki,? svarar hver og einn þegar spurt er um mikilvægustu dyggðina. Sama segja fulltrúar starfsstétta, faggreina, fyrirtækja og stofnana. ?Heiðarleiki,? segir stjórnmálamaðurinn, ?heiðarleiki,? segi ég og ?heiðarleiki,? segir þú.

Það eftirsóknarverðasta er þó sjaldnast dregið upp úr lukkupotti. Hamingja er til að mynda langtímaverkefni. Sama á við um heiðarleika. Orðspor heiðarleika hefur borist okkur til eyrna en vegurinn til hans er lærdómur. Það er ekki nóg að segja ?ég er heiðarlegur.?

Heiðarleiki er dyggð sem þarf að læra og iðka. Heiðarleiki er samsettur úr mörgum þáttum en þó má ef til vill segja að dyggðin sé samhljómur milli orðs og æðis og að henni fylgi traust. Samhljómur milli vilja, ætlunar, orða og athafna. Heiðarleiki birtist þar sem engin brögð eru í tafli, engin klókindi, vélráð, engar gryfjur eða blekkingar.

Ef til vill er heiðarleiki lofaður í orði á Íslandi en ekki á borði? Annar áunninn eiginleiki er í raun meira metinn. Hann fellur þó ekki undir mannlega kosti heldur ókosti. Þessi löstur hlýtur oft lof og þeir sem öðlast færni í að beita honum njóta aðdáunar annarra. Nafn þessa þáttar er kænska.

Kænska er vissulega kostur í spilum og ýmis konar leikjum, en hún er að einhverjum ástæðum einnig talin kostur á vettvangi valdsins t.d. í stjórnmálum og viðskiptum. Kænska merkir þá bragðvísi eða lævísi og er oft ruglað saman við vit og skynsemi.

Klókindi eru í raun andhverfa heiðarleikans. Ef heiðarleiki er hæst skrifaða dyggðin á Íslandi, ætti bragðvísin að vera á botninum ? en svo er ekki. Bragðarefurinn er ekki sagður lævís heldur hygginn, ekki slægvitur heldur vitur.

Hinn heiðarlegi er endrum og eins sakaður um heimsku vegna þess að hann upplýsir um það sem hann veit í stað þess að fela hnökrana í máli sínu. Hann segir jafnvel frá því sem mælir gegn hans eigin ráði. Hinn klóki ætlar hins vegar að sigra umræðuna og nefnir einungis það sem fegrar mál hans hverju sinni. Stundum aðeins hálfan sannleikann.

Umræðan á Íslandi er of oft á tíðum menguð af kænsku og bragðvísi þeirra sem taka þátt. Heiðarleg, opin og gagnsæ umræða gagnvart almenningi er aftur á móti skylda. Jafnvel þótt bragðarefurinn njóti vinsælda má hann alls ekki ráða í málefnum sem varða almenning, því ráð hans búa ekki yfir heildarsýn. Ráðin taka ekki mið af hugsjóninni um farsæld almennings, lýðræði, jöfnuð og betra samfélag fyrir alla, konur og karla.

Umræðan á Íslandi, t.a.m. um auðlindir og náttúruvernd þarf alls ekki á kænskubrögðum að halda, ekki skammtímahagsmunum fyrirtækja, ekki földum upplýsingum. Umræðan krefst heiðarleika, gagnsæis og gagnrýnnar hugsunar. Ástæðan er sú að niðurstaðan er oft óafturkræf og varðar næstu kynslóðir.

Gunnar Hersveinn - www.lifsgildin.is

 

 


Svæði

  • Facebook
  • Vimeo
  • Soundcloud
  • RSS
moya