Gagnsær og sjálfbær

Gagnsær og sjálfbær

Gagnsær er gildi sem er (skilnings)ljós þeirra sem fást við að verja verðmæt náttúrusvæði. Ef rýnt er í orðið út frá siðfræði tungunnar opinberast merkingar þess og verða um leið gagnlegar í baráttunni.

Gagnsæi er leiðarljós þegar ákvarðanir eru teknar um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhita ? ef sátt á að nást um 2. áfanga rammaáætlunar.

Saga þýðingarmikilla ákvarðana er of oft mörkuð tímabundnum hagsmunum, takmörkuðum upplýsingum og löngunum til ráða för. Ákvarðanir, sem hafa ekki aðeins áhrif á kjör núlíðandi kynslóðar heldur einnig þeirrar næstu, þarf að taka af skilningi en ekki þrjósku. Ekki er nóg að safna upplýsingum heldur þarf einnig að greiða úr þeim, flokka og túlka.

Gagnsæi er lykilorð sem bæði virkjanasinnar og náttúruverndarar ættu að fylgja og að opna um leið gagngóða umræðu um verðmæt náttúrusvæði. Áhrifum þessa orðs má líkja við fágað stækkunargler eða heiðan himin í stað skýjahulu.

Orðið gagnsæi hefur margar merkingar. Áhugavert er að skoða liði þess gagn- og -sær. Forliðurinn gagn- getur merkt hvaðeina sem stendur andspænis hvort öðru, tvenns konar sjónarmið, gagnrök og að taka hvor sinn pólinn í hæðina. Nauðsynlegt er að meta kosti í nýtingamálum út frá gagngóðum með- og mótrökum.

Gagn- getur einnig þýtt gjör eða eitthvað á borð við gagnkunnugur eða að gagnskoða og loks merkir hann gegnum, líkt og í lýsingaorðinu gagnsær. Forliðurinn gegn- í gegnsær hefur einnig merkinguna gegnum. Ástæður á bak við ákvarðanir eiga að vera gjörþekktar ef gagnsæi er megingildi í umræðunni.

Sjálft orðið gagn kemur einnig að liði í merkingunni gögn, það á ekki að taka þýðingarmiklar ákvarðanir í málum fyrr en búið er að safna og greina öll möguleg gögn. Ekki sópa gögnum undir teppið, ekki koma í veg fyrir að gagna sé aflað, ekki túlka gögn út frá hagsmunum. Ekki taka gögn úr samhengi.

Orðið sær hefur einnig margar merkingar, það getur verið karlkyns eða kvenkyns merkt sjó eða haf og leiðir hugann að undirdjúpunum en þar er spekin stundum sögð leynast. Gagnsær gæti því merkt sjór sem sjá má gegnum, tærleiki.

Sær getur einnig þýtt svarinn eða sjáanlegur og verið viðliður: auðsær, djúpsær, gegnsær og raunsær. Tillögur um rannsóknarleyfi sem eiga ekki að hafa mikil áhrif á ósnert náttúrusvæði eru til að mynda hvorki raunsæjar né gagnsæjar.

Gagnsær vekur sterk hugrenningartengsl við gagnrýna hugsun sem felst í því að gera hlutina gagnsæja: gagnskoða, gegnumlýsa og tefla fram gagnrökum. Gagnsær merkir þá dyggð að safna öllum mögulegum gögnum áður en ákvörðun er tekin, greina þau, meta og birta opinberlega.

Ef við gerum orðið gagnsær að lífsgildi milli manns og náttúru þá er eftirsóknarvert að gefa því merkingu til viðbótar. Gagnsæi felst í því að leggja öll gögn á borðið og meta þau út frá eins mörgum sjónarhornum og okkur er unnt hverju sinni. Ekki aðeins út frá sjónarmiði mannsins heldur alls sem býr í náttúrunni; landslagi, gróðri, dýrum, fallvötnum, ám, jarðhita og stöðu gagnvart hliðstæðum annars staðar á jörðinni.

Gagnsæ ákvörðun í umhverfismálum telst því sú ákvörðun sem byggir á þverfaglegri niðurstöðu allra ofangreindra þátta.

Gagnsæi er skýr mannshugur sem hefur öðlast heildarsýn og sem líkja má við tærleika og ómengað vatn. Forliðurinn gagn- skapar hugrenningartengsl við gagnsemi og nytsemd sem er gott því það rímar við nægjusemi sem er höfuðdyggð náttúruverndara ? að meta það sem til staðar er af hófsemd.

Orðin gagnsær og sjálfbær eiga samleið því sjálfbær þróun felst í því að sjá samhengið á milli efnahags, mannlífs og umhverfis og hreinsa burt mengunina sem byrgir okkur sýn þegar ákvarðanir eru teknar.

Sjálfbærni snýst um jafnvægi milli manns og náttúru ? að draga úr sóun og eyðileggingu og skapa samfélag sem tekur ekki meira en það gefur til baka. Gagnsæi er lykilverkfæri því það hjálpar okkur til að grafa upp svarið við spurningunni:

Hvers konar líferni veitir næstu kynslóð tækifæri til að lifa og hrærast í sátt við náttúru og samfélag?

Gunnar Hersveinn ? www.lifsgildin.is


Svæði

  • Facebook
  • Vimeo
  • Soundcloud
  • RSS
moya