Kjarkur og nægjusemi

Kjarkur og nægjusemi

Kjarkur og nægjusemi eiga samleið í náttúruvernd, þau mynda samband sem sjaldan er nefnt eða lofað. Samstarf þeirra táknar farsæla framtíð. Kjark þarf til að segja: Nú er nóg komið! Hættum þessari vitleysu! Þessar dyggðir eru fylginautar sjálfbærni.

Kjarkur er oft sagður höfuðdyggð hetjunnar, dyggð fyrir karlmenn í fremstu víglínu. Hinn hugrakki hikar ekki og heldur hugsunarlaust áfram þar til hann tapar öllu: allt eða ekkert. Nægjusemi er á hinn bóginn sögð höfuðdyggð heimilisins, jafnvel flokkuð með hreinlæti, blygðun og lítillæti.

Hófsemin bíður í festum þegar aðrir leita eftir frægð og frama. Kjarkur er útrás og nægjusemi heimalingur. Hugrekkið heldur í stríð en hófsemin lætur sér nægja það sem hún hefur. Svona hefur þessu verið stillt upp: kjarkurinn er þá karllæg dyggð og nægjusemin kvenlæg. En þetta er áróður, gerður til að beina sjónum frá kostum hófseminnar.

Fæstir vita að kjarkur og nægjusemi eru kjörið par í náttúruvernd. Dyggðirnar tvær eru eftirsóknarverðar, óháðar stöðu og prýða bæði kynin vel. Nægjusemi er nauðsynleg hverjum og einum sem ætlar sér að komast á leiðarenda. Nægjusemi er andstæðan við græðgina sem skapar bilið milli einstaklinga, þjóða og skiptir heiminum í velmegunarlönd og þróunarlönd.

Nægjusemi er dyggðin sem markaðurinn hafnar. Hún glæðir ekki kaupgleði og knýr ekki fólk til eyðslusemi. Hún eykur ekki hagvöxt. Nægjusemin kaupir ekki 50 MW túrbínur í ósamþykka jarðvarmavirkjun, hún bindur ekki enn eitt fallvatnið fyrir orkuver í stað þess að draga úr neyslu. Hún laðar fremur fram aga og er ekki í kapphlaupi við tímann.

Henni ber ekki fyrir á markaðstorgum. Nafn hennar er ekki ritað á kröfuspjöldin. Hún setur mörkin og spornar við gengdarlausri græðgi, hömlulausri samkeppni og taumlausri sókn. Nægjusemi er annað orð yfir sjálfbærni.

Sjálfbærni í ljósi nægjusemi

Sjálfbærni er viðbragð við hömluleysi mannsins, hún er aðferð til að koma böndum á græðgina og efla með manninum nægjusemi. Ekki vantar auðlindirnar eða orkuna á Íslandi? fremur skortir á siðvitið og þolinmæðina.

Nægjusemi er lykilorð í umhverfisvernd sem allir geta tileinkað sér. Hún er annað heiti yfir hófsemi og felst í því að temja sér líferni sem tekur tillit til annarra þátta lífsins, og hún hafnar sóun og ofneyslu.

Um þessar mundir berast lúmskar fréttir um að bílafloti Íslendinga sé að verða gamall og sé jafnvel sá elsti á Norðurlöndum. Almenningur er nú hvattur til að eignast nýja bifreið og endurnýja hana aftur eins hratt og hægt var. Þetta eru fréttir græðgi og sóunar. Því fleiri bifreiðar sem seljast, því meiri framleiðsla, því betri hagvöxtur segja mælitækin. Neysluhyggjan er greinilega í góðum gír og nægjusemin verður undir.

Nægjusemi er dyggðin sem breytir fólki til betri vegar í umhverfismálum. Hún merkir ekki stöðnun eða afturför, heldur þvert á móti framför. Nægjusemi er fáguð dyggð sem bætir hvern þann sem tileinkar sér hana.

Sjálfbærni er ekki óútreiknanleg, djörf, agalaus eða harkaleg, heldur mild, hæg og vinaleg í samskiptum við aðrar þjóðir og umhverfið. Nægjusemi og kjarkur eru fylginautar hennar. Staðir, þar sem hún ber niður, leggjast ekki í auðn, heldur þróast þeir með íbúum sínum í sátt við vistkerfið.

Gunnar Hersveinn - www.lifsgildin.is


Svæði

  • Facebook
  • Vimeo
  • Soundcloud
  • RSS
moya