Skjálfandafljót kemur úr Vonarskarði og rennur norður í Skjálfandaflóa. Stórbrotnar náttúruminjar er að finna í og við vatnasvið Skjálfandafljóts, eins og Goðafoss, Laufrönd og Neðribotna, Ingvararfoss, Hrafnabjargafoss, Aldeyjarfoss, Þingey, Skuldaþingsey, votlendi á Sandi og Sílalæk í Aðaldal, Gæsavötn við Gæsahnjúk, Tungnafellsjökul og Vonarskarð.
Þrjár virkjunarhugmyndir eru í Skjálfandafljóti, þ.e. Eyjadalsárvirkjun, Fljótshnúksvirkjun og Hrafnabjargavirkjun A. Faghópur I í 2. áfanga rammaáætlunar telur að Skjálfandalfljót sé meðal verðmætustu svæða landsins með tilliti til landslags og víðerna. Æskilegt er að friðlýsa Skjálfandafljót frá upptökum til ósa.
Friðlýstar minjar eru Þingey, Skuldaþingsey, Hrauntunga, Hofgarður og nafnlaust býli við Fiskiá.
Þingstaðirnir tveir í Skjálfandafljóti (Þingey og Skuldaþingsey) eru með merkari og best varðveittu fornminjum á Íslandi og leifar af fjölmörgum þingbúðum sjást þar enn.
Ein sögufrægasta ferðaleið landsins Bárðargata liggur um svæðið en götuna eru ferðamenn farnir að ganga á ný.
Mynd © Mats Wibe Lund