Barátta og friðsemd - in memoriam GPÓ

Guðmundur Páll Ólafsson var maður friðsemdar en mótmæli hans voru iðulega kröftug og vöktu athygli þjóðarinnar. Mótmæli hans við Fögruhveri við Hágöngur urðu öðrum hvatning til góðra verka í baráttunni gegn náttúruspjöllum. Bækur hans vitna um að fræðsla

Barátta og friðsemd - in memoriam GPÓ

Friðsemdarfólk getur verið feikilega öflugt baráttufólk. Það getur logað af orku, vilja og þreki til að berjast gegn heimsku og illsku. Náttúra Íslands þarfnast friðsemdarfólks sem getur dregið máttinn úr skipulögðum hernaði gegn landinu.

Starf friðsemdar í náttúru Íslands snýst oft um að bjarga verðmætum undan eyðileggingarmætti græðgi og heimsku. Hún þarf sífellt að forða gersemum undan, hindra, stöðva, afla fylgis, afhjúpa og opna augu annarra. Tími og orka friðsemdar fer í björgunarstarf en miklu meira býr í henni ? aðeins ef fólk gæfi henni tækifæri til að blómstra.

Friðsemdin beitir ekki aðferðum ofbeldis og eyðileggingar. Hún græðir og byggir upp. Hún getur verið kröftug sem dínamít en hún kúgar aldrei. Hún getur verið beittur penni og orðhvöss tunga en þrátt fyrir það eru sérkenni hennar vinsemd og sátt. Hún nemur ekki staðar, hún heldur áfram og einkenni hennar eru víðsýni og innsýn í betri framtíð.

Hún getur staðið fyrir kröftugum mótmælum og einnig byltingum. Hún getur bundið sig með keðjum á stórvaxnar vinnuvélar eyðileggingarinnar. Hún er fangelsuð víða um heim af hræddum kúgurum í nafni lyginnar. Hún hrópar og hún skammar ? en hún er ekki flagð undir fölsku skinni eins og mótherji hennar.

Friðsemd er höfuðdyggð náttúruverndara. Framtíðarvelferð lands og þjóðar, vitundin um velferð næstu kynslóðar, vistkerfis og lífríkis knýr hana áfram. Þaðan fær hún orkuna. Hún skapar ekki óvild og vekur ekki upp hatur heldur hvetur til umræðu á jafnræðisgrunni.

Friðsemdin er engin lydda, hún er óstýrilát gagnvart kúgandi valdi. Hún er sjaldan í fréttum því aðferð hennar felur ekki í sér ógn eða sigur, ekki kænsku eða dauða. Samt er hún bylting! Friðsemdin bjó í Guðmundi Páli Ólafssyni einum öflugasta liðsmanni hálendisins, hann var perla í náttúru Íslands. Tökum hann okkur til fyrirmyndar!

Hann skrifaði: ?Náttúruvernd er mannvernd. Hún snýst um verndun náttúruarfleifðar og hins sögulega arfs. Um leið er hún heilsteypt sýn á eilífðarnýtingu landsins gæða og eina framtíðarvon mannsins.? (Grát fóstra mín, 1997). Lesum bækurnar hans, hann hafði mannbætandi náttúrusýn.

Þetta er ósköp einfalt. Við erum ekki aðeins, íbúar í borg, bæjum og sveitarfélögum. Við erum einnig staðurinn, landslagið, umhverfið og náttúran öll. Að selja hana undir eituriðjur eins og GPÓ kallaði þær, er ekki aðeins stundargróði hinna miskunnalausu (vopnaframleiðenda) heldur einnig langtímatap þjóðar og stórtap sérhvers manns.

GPÓ var maður friðsemdar sem sparaði ekki stóru orðin. Tökum hann okkur til fyrirmyndar.

Gunnar Hersveinn - www.lifsgildin.is


Svæði

  • Facebook
  • Vimeo
  • Soundcloud
  • RSS
moya